Páskar á Daðastöðum

Páskar á Daðastöðum

Páskunum vörðum við að mestu á Daðastöðum í góðu yfirlæti. Tækifærið var notað til að taka út hundana hjá Gunnari bónda. Okkur hlakkaði sérstaklega til að sjá Prins hinn unga, sem er undan Prins heitunum og Lýsu hans Þorvarðar á Eyrarlandi (myndin með fréttinni er af honum). Þetta var með fyrstu skiptum sem hann fer í fé og er því engin reynsla komin á gripinn en hann lítur út fyrir að vera efni í prýðilegan fjárhund. Prins er gjörvilegur á velli, fullur sjálfstrausts, en liprari en faðir sinn. Það verður spennandi að fylgjast með honum.Þá skoðuðum við Lúsý og Mola sem bæði eru frambærilegir hundar, en ekki fulltamin.

Skotta fékk það hlutverk að venja forystulömbin fyrir bóndann á Daðastöðum. Þetta var um 20 lamba hópur og fórst Skottu það vel úr hendi eins og flest annað sem hún gerir. Eftir skamman tíma létu þessir léttfættu lambskrokkar að stjórn tíkarinnar við augnatillitið eitt og voru óvanalega rólegar (miðað við forystufé). Það var huggulegt að sjá. Nokkrar myndir eru sjáanlegar ef smellt er á myndahnappinn.

Leave a reply