Panda smalar í Hollywood

Panda smalar í Hollywood

Núna þegar Panda er komin á eftirlaunaaldur blómstrar kvikmyndaferlinn sem aldrei fyrr. Ekki allar kynsystur hennar sem geta sagt það sama!

Panda tók þátt í kvikmyndinni „Dýrið“ sem var tekin upp í Hörgárdalnum í sumar. Þar var hún ekki í dónalegum félagsskap, en með aðalhlutverk í myndinni fara Hilmir Snær og Noomi Rapace. Handritið er eftir Valdimar Jóhannsson og Sjón. Leikstjórn er í höndum Valdimars. Panda er mikið í mynd og þurfti að aðlaga sig hratt að hinum ýmsustu aðstæðum og ólíkum verkefnum. Hún stóð sig að sjálfsögðu eins og hetjan sem hún er. Það er sennilega best að segja sem minnst um söguþráðinn en honum er þannig lýst á kvikmyndamidstod.is: „María og Ingvar búa á afskekktum sveitabæ. Þegar lítil og óvenjuleg vera kemur inn í líf þeirra verður breyting á högum þeirra sem færir þeim mikla hamningju um stund. Hamingju sem síðar verður að harmleik.“

Panda var að auki bókuð í smá verkefni í kvikmyndinni „Eurovision“ sem er verið að taka upp á Húsavík um þessar mundir. Þar voru það reyndar nokkrar Ketilsstaðakindur sem voru í forgrunni en Panda aðstoðaði við að halda þeim á réttum stað fyrir myndavélarnar. Myndin skartar meðal annars stórleikurunum Will Ferrel, Rachel McAdams og Pierce Brosnan og hefur fengið nokkra umfjöllun í fjölmiðlum undanfarið, sjá meðal annars á ruv.is.

Panda er ekki alveg ókunnug því að vera á tökustað, en einhverjir muna eftir henni í myndinni „Hrútar“ eftir Grím Hákonarson sem kom út árið 2015.

Þessi nýji starfsframi Pöndu hefur reyndar valdið ákveðnum vandræðum heima fyrir því nú neitar hún að fara nokkuð nema fyrir hana sé lagður rauður dregill og lítur ekki við skipadreglinum sem ég útvegaði henni!!

Panda að störfum í Hörgárdalnum. Mynd: Robert Garcia

Panda lætur hvorki reykvélar eða annað áreiti trufla sig í vinnunni.

Panda og Kolur ásamt aðalleikonunum frá Ketilsstöðum eftir vel heppnaðar “Eurovision” tökur. Hvað leynist í “þokunni” verður ekki upplýst að sinni.

Forsíðumynd: Robert Garcia

Leave a reply