Panda frá Daðastöðum – minning

Panda frá Daðastöðum – minning

Panda, sem hefur fylgt okkur síðustu 12 árin og á þeim tíma aldrei orðið misdægurt, kvaddi okkur með litlum fyrirvara síðasta sunnudag. Mig langar að heiðra minningu hennar með nokkrum orðum. Endalaust dugleg, hraust, fjölhæf og lausnamiðuð …ef maður getur notað það orð um hund. Það var sama hvaða verkefni henni voru sett fyrir, hún gafst aldrei upp eða missti kjarkinn. Þó eigandinn væri stundum með allt á hornum sér í þjálfuninni þá horfði hún bara spyrjandi en kokhraust á hann, „nú hva!! …ertu ekki að fíla þetta? …ég prófa þá eitthvað annað næst“. Þetta hugarfar smitaði eigandann og ég trúi að það hafi gert mig að betri þjálfara og jafnvel betri manneskju. Hún var algjörlega frábær í heiðinni, engin brekka of brött eða grýtt og þar var ekki sú kind sem valtaði yfir hana. Panda tók þátt í ófáum keppnum og þó hún væri ekki alltaf á palli, stóð hún sig alltaf vel og ég var alltaf stolt af henni. Við ferðuðumst meðal annars til Hollands og kepptum á HM sem var einstök lífsreynsla …fyrir mig þeas!!… fyrir hana virtist þetta vera eins hversdagslegt og smala heimatúnið. Hún var ómetanleg hjálparhella á námskeiðum þar sem kindurnar gátu verið erfiðar, hundarnir reynslulitlir og allt gat gerst. Þó Panda hafi fyrst og fremst verið fjárhundur tók hún líka þátt í nokkrum kvikmyndaverkefnum og ég var sérstaklega stolt af frammistöðu hennar í Hrútum þar sem hún þurfti oft á tíðum að leysa flókin verkefni án kinda. Hún hafið ekkert á móti því að stjórna og ég hef aldrei haft svona virkan leiðtoga í hundahópnum, en hún stjórnaði í genginu af mikilli röggsemi og furðulegri sanngirni. Með einni undantekningu… Panda deilir ekki mat!! Á seinni árum þróaði hún með sér gríðar mikla ást á mat. Hún gat dundað sér daglangt við að leita að litlum matarflísum hvar sem þær var mögulega að finna og hún rak aðra hunda miskunnarlaust frá þeirra matarskammti ef maður hafði ekki eftirlit með henni. Heima við var hún hinn fullkomni heimilishundur, hvers manns hugljúfi og elskuð af fjölskyldunni. Fallegri en morgundagurinn. Það er tómlegt án hennar. (Lísa)

Mynd á forsíðu: Robert Garcia

Leave a reply