Námskeiðshald í fullum gangi

Námskeiðshald í fullum gangi

Nokkur eftirspurn hefur verið eftir námskeiðum undanfarið og tekin törn núna í apríl til að sinna henni. Þetta endurspeglar áhuga fólks á tamningu BC fjárhunda sem er auðvitað gleðiefni. Lísa var með tveggja daga námskeið á Gunnarsstöðum í Þistilfirði dagana 9.-10. apríl. Þar tóku þátt 11 smalar með jafnmarga hunda og voru þeir allir úr Þistilfirði eða nærsveitum. Á Gunnarsstöðum er ágætis reiðskemma og fór námskeiðið fram í henni. Nær allir hundarnir voru á frumstigum tamningar og hentaði aðstaðan nemendunum mjög vel. Myndir frá námskeiðinu má finna hér.

Laugardaginn 16. apríl var svo eins dags námskeið á Hríshóli í Eyjafirði. Það var haldið við hefðbundnari aðstæður, það er utandyra. Ágætis veður var þennan dag og vel tókst til með námskeiðið. Sex smalar með átta hunda tóku þátt. Allir þátttakendur, ef frá er talin einn, komu úr Eyjafirði en einn smalinn kom akandi um morguninn úr Skagafirði til að mæta á námskeið.

Margir ágætis hundar og nokkrir bráðefnilegir sem verður gaman að fylgjast með, þar á meðal Rjómi frá Húsavík (undan Pöndu og Galdri) sem kemur til okkar í frekari tamningu í sumar.

Helgina 23-24. apríl er síðan fyrirhugað þriðja námskeiðið. Það verður haldið á Syðri-Sandhólum, Tjörnesi. Þegar hafa nokkrir þátttakendur staðfest komu sína en einhver pláss laus.

Leave a reply