Mótaröð Austurlandsdeildar SFÍ

Mótaröð Austurlandsdeildar SFÍ

Nú þegar haustönnunum er lokið, þar sem bændur berjast við að sigra fjallið með hundana sína að vopni, er ekki úr vegi að láta reyna á hundana á öðrum vettvangi. Austurlandsdeild SFÍ girti sig heldur betur í brók þetta síðhaustið(snemmvetur) og bauð upp á fjárhundakeppni tvær helgar í röð. Annars vegar á Ytra-Lóni Langanesi 4. nóvember og hins vegar á Eyrarlandi Fljótsdal 11. nóvember. Sverrir Möller bar hitann og þungann af fyrra mótinu og Þorvarður Ingimarsson því seinna og við hæfi að þakka þeim kærlega fyrir það sem og öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn. Ketilsstaðaklanið lagði land undir fót, enda varla hægt að líta öðruvísi á en það sé skyldumæting þegar félagar manns í fjárhundunum hrista mót fram úr erminni. Það voru þau Panda og Kolur sem fengu að spreyta sig í brautinni að þessu sinni undir stjórn Lísu.

Panda átti mjög gott rennsli á Ytra-Lóni sem skilaði henni fyrsta sæti og 86 stigum og Kolur fylgdi fylgdi fast á hæla hennar í öðru sæti með 84 stig. Þau áttu einnig gott mót á Eyrarlandi. Þar var Kolur í öðru sæti með 82 stig og Panda í því þriðja með 79 stig. Þá voru það aftur á móti „heimamenn“ Þorvarður og Spaði sem tóku gullið.

Sú nýbreytni hefur orðið á síðastliðnu ári að keppt er að 110 stigum í A-flokki, en áður var keppt að 100 stigum. Þessi auka 10 stig felast í því að eftir að kindurnar hafa verið settar í réttina þarf að reka þær aftur úr réttinni og ná einni merktri kind frá hópnum. Þetta er til samræmis við það sem er jafnan gert í UK og getur verið heilmikil áskorun.

Panda er alveg mögnuð tík og með betri vinnuhundum, a.m.k. að mati eigandans. Hún getur verið dálítil brussa, en duglegri eða viljugri hundar eru vandfundnir. Það er ekki til í hennar hugmyndabanka að gefast upp og hún finnur alltaf einhverjar leiðir til að leysa vandamálin. Panda fyllir tíu ár í febrúar næstkomandi en er enn fílhraust og full af unggæðingshætti.
Kol eignuðumst við ekki fyrr en seint á árinu 2016 þegar hann átti stutt í fjögur ár. Það er varla hægt að tala um að hann hafi verið fulltaminn (ef einhvern tímann er hægt að tala um það) fyrr en núna í haust/vetur. Hann er því að stíga sín fyrstu skref í keppni núna og eigandinn getur varla annað en verið ánægð með hann. Eins og sést á myndinni sem fylgir fréttinni er enn fyrirséð dálítil óunnin vinna í að fullkomna fyrirsætuhæfileikana.

Á heimasíðu Smalahundafélags Íslands má finna frekari upplýsingar um mótin: Ytra-Lón & Eyrarland

Leave a reply