Jæja… ekki fréttir í marga mánuði en nú skal tekið á því…
Þorvarður og félagar í Austurlandsdeildinni gerðu sér lítið fyrir, skelltu upp braut og skipulögðu mót á Eyrarlandi helgina 21. til 22. nóvember. Frábært framtak það!! Alls voru 15 keppendur víða af landinu og þar af 11 í A-flokki. Að þessu sinni var rekið upp á hægri hönd. Það hefur skapast hefð fyrir því á undanförnum árum að reka upp á vinstri hönd og undirrituð ekki reynslunni ríkari en svo að hún hefur aldrei keppt í braut þar sem rekið er upp á hægri hönd. Þetta var pínu stressandi en mjög holl áminning því auðvitað á það ekki að skipta hund eða smala máli. Kindurnar voru sprækar og tolldu vel saman, líka þegar átti að skipta þeim ;). Réttin reyndist flestum áskorun og undirrituð stóð sig að því að gleyma að anda í hasarnum. Note to self… muna að anda… þá gengur betur. Ég hef einhvern tímann verið öruggari með mig, en heppnin var með okkur í þetta skiptið og þær mæðgur Skotta og Panda hlutu náð dómarans. Þær fengu 81 stig (af 100) hvor sem skilaði þeim 1. og 2. sætinu í A-flokki. Það verður ekki frá þeim mæðgum tekið að þær eru dugnaðarforkar. Panda er algjörlega óseðjandi þegar kemur að því að smala og Skotta sem er að verða 9 ára er ennþá alveg ótrúlega hraust. Báðar hafa verið í vinnu svo gott sem um hverja einustu helgi, og rúmlega það, frá því um miðjan september og skilað sínu í heiðinni.
Myndir frá mótinu má finna hér.
Hér má finna frekari úrslit frá mótinu.
Skrifað af Lísu