Mót á Eyrarlandi

Mót á Eyrarlandi

Þann 30. október síðastliðinn fór fram fjárhundakeppni á Eyrarlandi sem Austurlandsdeild SFÍ stóð fyrir. Þar var allt til mikillar fyrirmyndar eins og við var að búast þar á bæ. Kindurnar góðar og jafnar, höfðinglegar veitingar, vegleg verðlaun og veðrið gott …eins og það er reyndar alltaf á Eyrarlandi var okkur sagt. Lísa mætti til leiks með Skottu, en Panda var heima með börn á brjósti. Aðrir hundar á Ketilsstöðum eru enn ekki tilbúnir í keppni. Lísa sagði fyrir keppnina að þetta yrði sennilega síðasta keppnisrennslið hennar og Skottu, en Skotta er orðin 10 ára og á að baki farsælan feril. Skotta er ennþá ótrúlega hraust en rétt að leggja skóna á hilluna áður en halla fer verulega undan fæti. Skotta fór í gegnum brautina af reynslu og yfirvegun sem skilaði okkur 90 stigum af 100 og fyrsta sæti í A-flokki. Þrefalt HÚRRA fyrir Skottu. Leitin að arftaka Skottu hefur ekki borið tilætlaðan árangur ennþá en tölfræðin er farin að vinna með okkur. Næsti upprennandi snillingur hlýtur að vera rétt handan við hornið.

Myndir frá keppninni á sjá á myndasíðunni okkar.

Leave a reply