Landsmót SFÍ 2018

Landsmót SFÍ 2018

Landsmót Smalahundafélags Íslands 2018 fór fram á Möðruvöllum í Hörgárdal 25. – 26. ágúst síðastliðinn. Smalahundafélag Hörgársveitar og nágrennis sá um mótið að þessu sinni en þetta var í fyrsta skipti sem mótið var haldið á þessum slóðum. Brautin var að mörgu leyti skemmtileg en að sama skapi full af áskorunum. Talvert sog var af útihúsum og að auki voru kindurnar æði misjafnar og margar erfiðar. Það hljóta að teljast meðmæli með ræktuninni á Íslandi hvað hundarnir stóðu sig almennt vel við oft erfiðar aðstæður. Mótið heppnaðist með ágætum, það er alltaf gaman að koma á nýjar slóðir og ánægjulegt að sjá nýtt fólk koma að starfi félagsins. Í ár tóku 19 hundar þátt sem er þátttaka í meðallagi. Mótinu hafa verið gerð skil á heimasíðu Smalahundafélagsins og þar má meðal annars sjá úrslit mótsins.  Dómari var Ian Flemming sem kom frá Bretlandi (ekki rithöfundur) fyrir tilstuðlan ISDS (International Sheedog Society).

Kolur okkar átti sína frumraun í keppni á mótinu og keppti því í B-flokki. Hann komst þokkalega sáttur frá þessu og er spenntur að kynnast þessari hlið smalamennskunnar betur í framtíðinni. Kolur fór líka í vinnupróf daginn áður og fékk í kjölfarið inngöngu í ættbókargrunn ISDS. Panda okkar tók sömuleiðis þátt í A-flokki og stóð sig vel í að leysa þær ólíku og óvæntu áskoranir sem komu upp í brautinni þó ekki hafi hún komist á pall að þessu sinni. Sigurvegari mótsins var Maríus Snær Halldórsson sem stóð sig frábærlega ásamt tíkunum sínum tveimur Elsu og Söru.

Eins og venjulega var myndavélin með í för og hluta afrakstursins má sjá á myndasíðunni okkar.

Leave a reply