Landsmót SFÍ 2015 og námskeið í Skaftártungum

Landsmót SFÍ 2015 og námskeið í Skaftártungum

Undirrituð var beðin fyrir námskeið í Skaftártungum í kringum landsmót, þó ekki væri nema bara til að nýta ferðina betur :). Úr varð að við Alli ásamt Sigrúnu Lillý og hundum lögðum hálft landið undir fót þann 25. ágúst til að vera við námskeið dagana 26. og 27. ágúst. Mikið sem við söknuðum hraðbrautarinnar yfir hálendið í þokunni og myrkrinu um kvöldið. Námskeiðið var að frumkvæði Jóns Geirs Ólafssonar og ég þakka honum kærlega fyrir að hafa boðið okkur. Ég reyni alltaf að taka námskeið sé ég beðin um það, enda er þetta frábær leið til að kynnast sveitum landsins, fólkinu þar og síðast en ekki síst alls konar hundunum. Námskeiðið í Gröf var þar engin undantekning. Síðan vonar maður auðvitað að maður geti orðið að einhverju gagni. Ég verð að segja að það sem stendur upp úr ferðinni er ægileg og óvanaleg fegurð suðurlandsins. Hvorki ég eða Alli höfðum farið þetta síðan við vorum börn og við vorum alveg heilluð af samspili fjalla, jökla, vatns, sanda og hrauns. Að auki kom það okkur á óvart hvað það er strjálbýlt á þessu mikla túristasvæði. Ég átti von á að Kirkjubæjarklaustur og Vík væru um 2000 manna bæjarfélög en þetta eru bara pínulítil þorp …svona er maður nú illa upplýstur. Það setti svolítinn skugga á ferðalagið að Alli fékk brjósklos í upphafi ferðar og var því svo gott sem rúmliggjandi allan tímann á milli þess sem við drösluðum honum í bílnum á milli staða.

Landsmótið var þarna helgina á eftir. Panda var nýgotin og Ýta dó í vetur þannig ég hafði engu að flagga að þessu sinni nema Skottu minni sem hafði verið í fullu starfi sem aðstoðarhundur á námskeiðinu. Það er mjög misjafnt eftir námskeiðum hvað það mæðir mikið á hjálparhundinum þannig ég ákvað eiginlega þegar ég tók að mér námskeiðið að mótið myndi mæta afgangi. Enda hefur Skotta marg sannað sig sem einn af bestu hundum landsins í gegnum árin. Síðan þegar Alli fór svona í bakinu gerði það útslagið. Við fylgdumst með hluta af keppninni á laugardaginn (hér má sjá frétt um keppnina) en héldum síðan heim með mjög kærkominni millilendingu á Eyrarlandi hjá Varsa og Sólveigu sem tóku vel á móti okkur öllum. Sigrún Lillý var alsæl að komast úr leiðindunum í bílnum í dótaskúffurnar á Eyrarlandi.

Myndir frá námskeiðinu og úr ferðalaginu má finna hér.

Skrifað af Lísu

Leave a reply