Kolur frá Húsatóftum

Kolur frá Húsatóftum

Fæddur 2013. M. Kría frá Daðastöðum & F. Brúsi frá Brautartungu.

Á haustmánuðum kom hann Kolur frá Húsatóftum til okkar í framhaldsnám en þetta var þá í annað skiptið sem hann kom til okkar í þjálfun. Í þessari síðari tamningarlotu miðaði það vel að undirrituð prufaði að fara með nemandann upp á heiði í alvöru smalamennskur og í fersku fjallaloftinu fékk hún smalaást á hundinum. Flestir hundar geta orðið sæmilega góðir í tamningarhólfinu en það skilur á milli alvöru hunda og aukvisa þegar maður fer með þá í heiðina. Kolur reyndist vera alvöru hundur og því varð úr að undirrituð falaðist eftir hundinum. Fátt gott fæst fyrir ekki neitt þannig ég lét hana Nölu okkar af hendi í skiptum og fékk hún um leið ákaflega gott heimili.

Nú þegar tíkurnar okkar Skotta og Panda eru farnar að eldast og ungu hundarnir sem við höfum haft undanfarið hafa annað hvort ekki staðist fyllilega væntingar eða eru enn á reynslulausn, var ég farin að sakna þess að vera ekki með hund þar á milli.  Kolur er því kærkominn fulltrúi þeirrar kynslóðar sem vantaði inn í hundafjölskylduna. Kolur hefur margt með sér. Hann er mannelskur og indæll í allri umgengni. Hann er með eðlisgóð úthlaup, er fljótur að koma auga á fé og vílar ekki fyrir sér að fara fyrir það um langan veg. Hann hefur gott lag á að halda hópnum saman en einnig hægt að nota hann til að taka eina.

Hér er myndband af Kol síðan 2014 þegar hann kom fyrst í þjálfun: https://www.youtube.com/watch?v=0UyDLJbLUyM

Með kveðju frá Ketilsstöðum, Lísa

Leave a reply