Ketilsstaðir

Ketilsstaðir

Eins og reglulegir lesendur þessarar síðu hafa ef til vill tekið eftir þá er allur gangur á því hversu dugleg við erum að flytja nýjustu fréttir á viðeigandi tíma. Þessi frétt er ein af þeim sem dregist hefur að segja frá. Við fjölskyldan erum semsé flutt í Ketilsstaði á Tjörnesi.

Það var árið 2009 sem stefnan var tekin ákveðið á að flytja í sveitina. Allt frá byrjun hefur líklegasta lendingin í því máli að flytja á Tjörnes. Á þessum alltof langa tíma sem liðin er síðan 2009 hefur margt tafið för okkar, líklega þó ekkert jafn mikið og bankahrunið 2008. Margar leiðir hafa verið ræddar hvernig þetta geti orðið að veruleika og búið að velta við nær hverjum einasta steini í þeirri leit.

Það var svo sumarið 2015 sem fyrrum íbúar á Ketilsstöðum á Tjörnesi, þau Stjáni og Mæja, greindu okkur frá því að þau hefðu ákveðið að flytja til Húsavíkur og komandi vetur yrði þeirra síðasti í sveitinni. Við höfðum lýst yfir áhuga okkar á Ketilsstaðajörðinni til kaups nokkrum misserum áður. Við náðum fljótt samkomulagi og stefnan tekin á flutninga núna á nýliðnu sumri.

Við fluttum inn um mánaðarmótin júní/júlí, með hunda og hesta. Nokkrar kindur fylgdu með í kaupunum sem við munum sjá meira af síðar í haust. Það fer mjög vel um okkur hérna og mikil ánægja að loksins sé takmarki okkar náð. Við viljum nota þetta tækifæri og þakka Mæju og Stjána fyrir allt saman, ekki síst að hreinlega handvelja okkur sem kaupendur. Þau eiga stærstan þátt í því að við erum loksins komin út í sveit.

Einnig viljum við þakka einni manneskju sem átti þátt í þessu öllu saman eins og flestu sem vel gengur í sveitum hér um slóðir, en það er hún María Svanþrúður Jónsdóttir, ráðunautur. Hún var öllum aðilum innan handar í þessu máli og á því svo sannarlega sinn þátt í því að flutningurinn er orðin að veruleika.

Flutningarnir hafa breytt okkar aðstæðum að öllu leyti til hins betra, sér í lagi varðandi dýrahald eins og gefur að skilja. Það hefur líka margt breyst. Undirritaður hefur til dæmis loksins skráð sér starfsheiti í símaskrána og ja.is. Hann ber nú starfsheitið „bóndi‟.

1 Comment

  1. Lísa · 14/09/2016 Reply

    Það má ef til vill bæta því við að við þökkum öllum þeim sem lögðu okkur lið í flutningunum. Heiðar, Kiddi, Reynir, Birkir, Amma Guðrún og Amma Marý. Kærar þakkir fyrir okkur!!!!

Leave a reply