ISDS vinnupróf

ISDS vinnupróf

Þann 7. nóvember síðastliðinn fóru fram að Húsatóftum á Skeiðum vinnupróf International Sheepdog Society (ISDS) sem Smalahundafélag Íslands (SFÍ) varð aðildarfélag að fyrr á árinu. ISDS voru formlega stofnuð í Bretlandi árið 1906 af enskum og skoskum smölum til að halda utan um ræktun úrvals fjárhunda. Hundarnir skyldu ekki ræktaðir með tilliti til útlits heldur eingöngu eiginleika. Þessir hundar bera tegundarnafnið Border Collie og er þar vísað til uppruna tegundarinnar við landamæri Skotlands og Englands. Nú rúmum 100 árum seinna eru í félaginu rúmlega 6000 meðlimir og tegundin útbreidd um allan heim. Í stuttu máli þá staðfestir aðild Íslands að ISDS að SFÍ starfar í samræmi við meginmarkmið ISDS. Einstaka félagsmönnum er þó í sjálfsvald sett hvort þeir vilja gerast meðlimir í ISDS, en geri þeir það þá eiga þeir rétt á að nýta sér alþjóðlegan ættbókargrunn ISDS, keppa á mótum ISDS og verða áskrifendur að fréttablaði ISDS. Nýskráning í ættbókargrunn ISDS krefst þess að hundur standist vinnupróf, augnpróf hjá dýralækni og DNA blóðpróf fyrir augnsjúkdómnum CEA.

Undirrituð byrjaði að kanna jarðveginn hjá bæði félagsmönnum og ISDS samtökunum fyrir um þremur árum. Hún hefur síðan þá lagt mikla vinnu í þetta verkefni og notið við þá vinnu góðs stuðnings stjórnar SFÍ. Vinnuprófin voru má segja lokaspretturinn í þessu ferli. Jim Easton, formaður ISDS og Judith Seen, framkvæmdastjóri komu af þessu tilefni til að bjóða okkur velkomin í ISDS og taka út þá hunda sem vildu freista þess að komast í ISDS ættbókargrunninn.

Úttektina á þeim 22 hundum sem mættu í vinnuprófin gerði Jim Easton formaður ISDS og honum til aðstoðar voru Þorvarður Ingimarsson frá Eyrarlandi og Sverrir Möller frá Ytra-Lóni. Hundarnir voru á misjöfnum tamningarstigum, flestir talsvert tamdir en við matið var þó fyrst og fremst horft á eðli hundsins við vinnu í fé. Allir hundarnir stóðust prófið og Jim hafði orð á að þetta væri besta úttekt hjá aðildarlandi sem hann hafi gert frá upphafi. Venjulega væru 1-2 hundar sem honum langaði að taka með sér heim en í okkar tilfelli væru þeir amk 8-9. Hann var mjög ánægður með gæðin í ræktuninni hjá okkur og hvað það var mikið að öflugum (e.strong) hundum. Hann sagði meðal annars að ef einhver spyrði hvar hann gæti fundið öfluga vinnuhunda, þá myndi hann svara Ísland og hann hvatti okkur til að varðveita þessar öflugu línur. Þær væru því miður að fara halloka fyrir meðfærilegum og mjúkum hundum sem mættu sín lítils í krefjandi verkefnum á stórum fjárbúum. Hann sagði frá því að þegar hann var ungur hafi fæstum dottið í hug að mæta með hund í keppni fyrr en hann væri búinn að vinna heima á búinu um það bil þrjú ár, svo kraftmikilir hafi þeir verið. Þá bar hann smölunum vel söguna og hvatti okkur til að senda fulltrúa á Evrópukeppni smalahunda 2016. Það var ekki annað að sjá en Jim væri hrærður og ánægður í lok dags.

Þeir hundar og menn sem tóku þátt á laugardaginn báru félaginu gott vitni enda samansafn frábærra ræktunarhunda og metnaðarfullra ræktenda. Að fá þessa góðu umsögn frá manni eins og Jim Easton sem er með puttann á púlsinum í dag og man líka eftir því þegar félagið var enn að slíta barnsskónum er heiður fyrir Smalahundafélag Íslands og ræktunarstarfið sem þar fer fram. Ekki síst eru þetta viðurkenning fyrir þá ágætu menn sem fluttu inn fyrstu hundana en ræktunin stendur enn á herðum þeirra. Þegar stofninn er lítill eins og á Íslandi er hver hundur sem er notaður eitthvað af ráði fljótur að skipta máli og því mikilvægt að vanda sig til að varðveita gæðin í ræktuninni.

Ég er alveg sérstaklega stolt af þessu verkefni og okkur öllum sem tókum þátt í því með einum eða öðrum hætti. Margir lögðust á eitt þannig allt gæti gengið upp. Þessi samverustund með Jim og Judith var bæði nærandi og hvetjandi og jók á samkennd þeirra sem þarna voru. Það er góð tilfinning að vera orðinn hluti af stærra samfélagi með sömu markmið. Það var líka skemmtileg tilbreyting að hitta félaga sína við annað tilefni en á keppni þar sem hver er fyrst og fremst að huga um sig og hvað hann er með mörg stig samanborið við þennan eða hinn. Það væri gaman að gera meira af því.

Judith og Jim dvöldu í góðu yfirlæti á Hestakránni Húsatóftum og á sunnudaginn fór ég síðan með Judith og Jim í “roadtrip” um Suðurlandið að skoða Þingvelli, Gullfoss og Geysi þannig þau færu örugglega heim með fullt af góðum minningum.  Lukkaðist það allt saman ljómandi vel.

Hér má finna myndir.

Skrifað af Lísu

Leave a reply