Hrútar

Hrútar

Mánudaginn þann 25. maí síðastliðinn var kvikmyndin Hrútar frumsýnd í Laugabíói. Myndin var tekin upp í Bárðardal síðasta sumar og vetur og var Lísa fengin til að þjálfa og stýra hundinum Sóma í kvikmyndinni. Sómi er leikinn af henni Pöndu okkar sem gegnir mikilvægu hlutverki í samskiptum bræðranna Gumma og Kidda, en þeir eru aðalsögupersónur myndarinnar. Panda stóð sig frábærlega vel í upptökunum og mátti litlu muna að eigandinn táraðist af stolti þegar hún sá afraksturinn í heild sinni á hvíta tjaldinu.

Myndin fjallar í stuttu máli um bændurna og bræðurna Gumma og Kidda sem búa í afskekktum dal á Norðurlandi. Þeir eru báðir miklir fjárræktendur sem er afar annt um féð sitt. Þrátt fyrir að þeir búi í kallfæri hvor frá öðrum hafa þeir ekki talast við í fjölda ára. Þegar riða kemur upp í dalnum hefur það djúpstæð áhrif á bræðurna. Myndin er í senn fyndin, ljúf og svolítið sár.

Hrútar vann nýlega til Un Certain Regard verðlaunanna á Cannes kvikmyndahátíðinni og er þetta í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd vinnur þar til verðlauna. Grímur Hákonarson leikstýrði myndinni og skrifaði handritið. Með aðalhlutverk fóru Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Að auki komu auðvitað fjölmargir að myndinni, þar á meðal margir heimamenn úr Bárðardalnum og nágrenni. Myndin hefur fengið jákvæðar móttökur og nú þegar verið seld út um allan heim. Hrútar hefur verið tekin til almennrar sýningar og við hvetjum auðvitað alla til að fara í bíó.

Myndir frá forsýningunni má sjá hér.

Hér er hægt að horfa á stiklu úr myndinni.

——————————————

Í öðrum fréttum er helst að því miður komu engir hvolpar komu í heiminn undan Skottu og Brúsa eins og til stóð.

Leave a reply