Framkvæmdir við nýja hundaaðstöðu

Framkvæmdir við nýja hundaaðstöðu

Í vetur höfum við verið að breyta hluta af gamli fjósinu á Ketilsstöðum í nútíma hundaaðstöðu. Við byrjuðum að rífa gömlu innréttingarnar í byrjun nóvember og lögðum upp með að aðstaðan yrði komin í gagnið um jól. Það gekk aftur á móti ekki eftir…. Þegar skipt var um eina fúna sperru var erfitt að láta staðar numið og skipta ekki um þá næstu osfv. og þannig teygðist verkefnið á langinn og hundarnir fluttu ekki inn fyrr en um mánaðarmótin síðustu. Nú þegar aðstaðan er komin í gagnið sjáum við hvorki eftir þeim tíma eða krónum sem verkefnið kallaði á. Enn eru þónokkur handtök óunnin sem hafa þó ekki mikil áhrif á notagildi aðstöðunnar sem stendur.

Hundarnir hafa rúmgóða inniaðstöðu þar sem þeir geta sprangað um eða hvílt sig eftir því hvernig liggur á þeim og ennfremur hafa þeir frjálsan aðgang að útigerði. Veggirnir eru vatnsvarðir, gólfið er steypt og með niðurfalli þannig auðvelt er að halda húsinu hreinu. Við skárum niður fjósamottur til að verja hundana fyrir gólfkulda og þeir hafi mjúkan svefnflöt. Húsið er vel einangrað og verður upphitað. Eftir reynslu okkar á síðustu árum er orðið ljóst að ekkert dugir til að halda aftur af misjöfnum hundum annað en járn og steypa og var húsið hannað með það að leiðarljósi. Sjálfar grindurnar sem mynda búrin eru fluttar inn, smíðaðar í Bretlandi af fyrirtæki sem sérhæfir sig í smíði hundagrinda.

Ekki er hægt að minnast á framkvæmdir á Ketilsstöðum án þess að minnast á Kidda, bróðir Lísu, sem hefur hjálpað okkur mjög mikið. Sem stendur er hlé á framkvæmdum enda mikill léttir að aðstaðan sé komin í notkun og hefur hún í för með sér bætt lífsgæði fyrir hunda og eigendur. Stefnt er á að taka upp þráðinn síðsumars þannig búið verði að tengja rafmagn og klára útihlerana fyrir veturinn.  Við leyfum myndum af hinum ýmsu framkvæmdastigum tala sínu máli, þær má nálgast á myndasíðunni okkar.

Leave a reply