Ferð til Bala

Ferð til Bala

Við pabbi fórum á hundasýningu/sölu í Bala í Wales UK í október síðastliðinn. Löng hefð er fyrir alls konar mörkuðum í Bretlandi og nokkrum sinnum á ári eru seldir fjárhundar á mörkuðum. Mig hefur lengi langað til að fara á svona viðburð og var með augastað á hundi sem mig langaði í. Ekki hreppti ég hnossið en hundurinn sem ég bauð í seldist að endingu á 6500 GNS (6830 GBP) eða rúma milljón ISK. Það var náungi frá Belgíu sem lét sig ekki og varð þetta var dýrasta salan á þessu uppboði. Ferðin var engu að síður ákaflega skemmtileg og mjög fróðleg fyrir margra hluta sakir.

Það var áhugavert að sjá þennan fjölda ólíkra hunda og verðin sem í þá voru boðin. Það kom mér reyndar svolítið á óvart hvað þarna voru margir góðir hundar. Alls voru 49 tamdir hundar sýndir. Ekki endilega fulltamdir en eitthvað tamdir. Bestu hundarnir voru gjarnan að fara á í kringum 4000-5500 GBP (um 620-850 þús ISK). Meðalverðið var 2227 GBP (um 300 þús ISK). Einnig voru til sölu 15 ótamdir hundar (ungir hundar og hvolpar). Þar var hæsta salan 1945 GBP (um 300 þús ISK) og meðalverð á hundi 854 GBP (um 130 þús).

Svona sölur eru vel sóttar af BC hundaáhugafólki í Bretlandi (ekki bara þeim sem hyggja á að kaupa sér hund) og þessi var það líka þrátt fyrir brjálað rok og úrhellis rigningu. Alþjóðlegur áhugi hefur verið að lyfta verðunum upp undanfarið, en það eru þó ekki síður breskir bændur og ræktendur sem eru til í að borga góð verð fyrir góðan hund. Verðlagningin verður varla heiðarlegri en á svona mörkuðum og kemur glögglega í ljós hvernig markaðurinn verðleggur góða hunda.

Bala er staðsett í jaðri þjóðgarðarins Snowdonia sem við pabbi fengum kærkomið tækifæri til að keyra í gegnum þegar við sóttum einn bóndann heim. Þjóðgarðurinn dregur nafn sitt að Snowdon sem er hæsta fjall Wales (1085 m). Umhverfið er gríðarlega fallegt og margslungið. Há fjöll, djúpir dalir, falleg vötn, vatnsföll, strendur og fjölbreytt gróðurfar. Það sem setur ekki síður svip á þjóðgarðinn er landbúnaðurinn innan þjóðgarðarins. Haglega hlöðnu girðingarnar, fallegu sveitabæjirnir og féð á beit í fjallshlíðunum. Búskapur er viðurkenndur og kærkominn hluti af þjóðgarðinum enda samofinn sögu og ásýnd landsins. Á þessu svæði er víða enn töluð Welska. Um 26.000 manns búa í þjóðgarðinum og er landið bæði í einkaeigu og ríkiseigu.

Frábærlega vel heppnuð ferð og algjört ævintýraland fyrir einhvern eins og mig, með áhuga á Border Collie fjárhundum, þjóðgörðum, fallegri náttúru og menningarlandslagi.

Leave a reply