Þó svo það sé nú ekki alltaf tilkynnt hér á síðunni verða stundum töluverðar breytingar á hundahjörðinni okkar. Ein slík var núna síðsumars þegar Emerest frá Brekku var seld. Emerest, eða Emma eins og hún var alltaf kölluð, kom til okkar fyrir um tveimur árum ásamt systur sinni eins og sjá má í þessari gömlu frétt. Systir hennar fór frá okkur eftir nokkra mánuði en Emerest var hjá okkur áfram sem möguleg ræktunar og vinnutík. Lísa var búin að temja hana talsvert síðustu tvö ár og líkaði vel við hana. Það var engu að síður ákveðið að láta hana fara og búa þannig til pláss fyrir næstu kynslóð hunda.
Það er sjálfsagt nóg að gera hjá henni þessa dagana, en það var hann Jón Númason frá Þrasastöðum í Fljótum sem keypti Emmu og þar eru ófá dagsverkin á haustin. Þessi ljósmynd var tekin við það tilefni. Eins og glöggir sjá var ekki þurrt þennan dag frekar en flesta aðra hér norðanlands þetta sumarið.