Border collie fjárhundar – leiðarvísir um þjálfun og uppeldi

Border collie fjárhundar – leiðarvísir um þjálfun og uppeldi

Árið 2012 setti Ásdís Helga Bjarnadóttir, þá starfsmaður Landbúnaðarháskóla Íslands, sig í samband við Smalahundafélag Íslands til að kanna áhuga á því að hefja samstarf um að útbúa íslenskt námsefni um þjálfun og uppeldi BC fjárhunda. Þessari hugmynd var að sjálfsögðu vel tekið og úr varð að undirrituð var fengin til að vinna verkið.

Síðan þá hefur drjúgum tíma verið varið í gerð bókarinnar og er hún loksins komin út. Nú þegar stóra stundin er runnin upp og komið að því að sjá á eftir barninu út í hinn stóra heim er ekki laust við að það fari um höfund smá skjálfti. Þegar höfundur var að fara á límingunum og vildi breyta hinu og þessu á síðust metrunum sagði ein ágæt kona honum að það væru til tvenns konar bækur, annars vegar þær sem væru ófullkomnar og hins vegar þær sem kæmu aldrei út.  Að þessum orðum sögðum var bókin send í prentun og dóm almennings.

Bókin er fyrst og fremst hugsuð fyrir byrjendur sem hafa óljósar hugmyndir um hvaða væntingar er hægt að hafa til BC fjárhunds eða hvernig á að þjálfa hann, en langar til að eiga og temja hund sem getur komið þeim að góðu gagni við smölun. Að auki er í bókinni ýmis fróðleikur sem öðrum áhugamönnum um BC fjárhunda getur þótt áhugaverður.

Eins og segir í formála bókarinnar er engin ein leið að temja hund þó flestir sem temja fjárhunda með árangri beiti í grunninn svipuðum aðferðum. Hver hefur sitt lag og sú leið sem ég kýs að fara í bókinni er að sjáfsögðu bara  ein af mörgum færum. Aðferðirnar sem kynntar eru í bókinni  eru yfirleitt frekar hefðbundnar og hafa verið notaðar af höfundi með ágætum árangri. Leiðirnar eru því vonandi flestum færar.

Það hefur auðvitað fyrst og fremst verið gaman og lærdómsríkt að fá að vinna þessa bók. Mig langar að nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn með einum eða öðrum hætti.

Gunnar Einarsson
Ásdís Helga Bjarnadóttir
Þorvarður Ingimarsson
Svanur Guðmundsson
Kristján Kárason
Guðfinna Berg Stefánsdóttir
Ragnhildur Sigurðardóttir
Sverrir Möller
Hildur Jóhannesdóttir
Þórunn Edda Bjarnadóttir
Guðrún Lárusdóttir

…og allir hinir sem ég er að gleyma.

Hægt er að kaupa bókina hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Einnig er hægt að kaupa bókina hjá Þorvarði Ingimarssyni (varsi@emax.is), formanni Smalahundafélags Íslands og hjá höfundi (minni á ,,Hafa samband” flipann). Bókin kostar 3500 krónur.

Lísa

Leave a reply