Við heitum Elísabet Gunnarsdóttir (Lísa) og Aðalsteinn J. Halldórsson (Alli) og búum á Ketilsstöðum á Tjörnesi. Við ræktum og temjum Border Collie vinnuhunda (ekki sýningartýpurnar). Það þýðir að hundarnir eru ræktaðir fyrst og fremst með tilliti til smalaeiginleika en ekki útlits. Hundarnir eru með ættbók frá Smalahundafélagi Íslands og International Sheepdog Society (ISDS). Ræktunin byggir meðal annars á þeim grunni sem Gunnar Einarsson hefur í mörg ár lagt með Daðastaðaræktuninni.
Lísa er uppalin á Daðastöðum í Núpasveit og hefur verið viðloðandi tamningu og ræktun fjárhunda frá blautu barnsbeini. Hún hefur á síðustu fimmtán árum þjálfað fjárhunda til vinnu og keppni með góðum árangri. Lísa hefur komið að tamningu fjölmargra fjárhunda, eytt drjúgum stundum í að kynna sér fræðsluefni um fjárhundatamningu og sótt námskeið hjá framúrskarandi hundaþjálfurum. Þannig hefur hún markvisst sótt sér reynslu og þekkingu. Að auki fór Lísa í þónokkuð viðamikið hundaþjálfaranám til Danmerkur og útskrifaðist sem hundaþjálfari frá Vores Hundecenter sumarið 2011.
Aðalsteinn er frá Syðri-Sandhólum á Tjörnesi. Hann hefur mikinn áhuga á ræktun og hefur gaman að því að fylgjast hvað er að gerast úti í heimi. Hann kemur mikið að daglegri umhirðu og aðhlynningu hundanna og er smá saman að koma meira inn í þjálfunina. Hann sér einnig að mestu um upptökustjórn myndskeiða og er sérlegur myndasmiður.
Hundarnir okkar eru hluti af fjölskyldunni og búa hjá okkur á Ketilsstöðum á Tjörnesi. Við höfum lítilsháttar búskap á Ketilsstöðum fyrir utan hundana og komum bæði talsvert að búskap á okkar uppeldisbæjum.